
Vorverk Sinfóníunnar þetta árið voru tvenns konar: að búa til lykilmyndefni fyrir starfsárið 2025-2026, sem og að uppfæra ásýnd fyrir vörumerki Sinfóníunnar. Það er aginn og sterki grunnurinn sem veitir Sinfóníuhljómsveit Íslands frelsið til að vera framsækin og skapandi. Sú grunnhugmynd býr að baki þessara verkefna og útfærslum á þeim.
Uppfærðri ásýnd á vörumerki Sinfóníunnar
Hreinteiknuðu merki Sinfóníunnar
Lykilmyndefni fyrir Sinfóníuna starfsárið 2025 - 2026
Hönnunarkerfi Sinfóníunnar þarf að vera sveigjanlegt og dýnamískt – í stakk búið til að laga sig að ólíkum verkefnum sveitarinnar.
Við hreinteiknuðum merki sveitarinnar, settum það í þrívídd, fundum til nýja leturgerð og glæddum hana lífi með dansandi leturkerfi í öguðu hönnunarkerfi.

Merki Sinfóníuhljómsveitar Íslands var teiknað 1988 af Aðalbjörgu Þórðardóttur. Í gegnum árin hefur það tekið áferðarbreytingum, og orðið tímabært að endurhugsa tæknilega útfærslu merkisins í takt við nýja tíma og breyttar þarfir. Merkið sjálft var endurteiknað út frá upprunalegu teikningunni, og aðlagað stærðar- og samhengiskröfum nútímans. Til að gefa merkinu enn frekara vægi, og kerfinu meiri sveigjanleika, er það nú stundum slitið frá orðmerkinu.
Merkinu var síðan gefið enn meira rými til tjáningar með þrívíddarteikningu. Þannig hefur það fengið nýtt hlutverk í hreyfðu myndefni. Upprunalegir litir merkisins – málmblástursbrass og flygilssvartur – njóta sín enn frekar með skarpri áferð og dýpt þrívíddarmyndarinnar.
Letur getur verið kraftmikið tæki til tjáningar. Við sáum tækifæri til að skapa þekkjanlegt leturkerfi með sveigjanleika til að tjá persónuleika hinna ýmsu verka sem Sinfónían flytur.
Ný leturgerð er í grunninn innblásin af norrænni list og menningu 20. aldar. Hún slær réttan takt reglu og hreyfingar – er fáguð og leikandi í senn. Þröng breidd stafanna leysir vanda sem löng íslensk orð kunna að búa til.
Þegar kom að samspili leturs og mynda í hönnunarkerfi var horft til nótnablaða. Flötum er skipt upp eftir fimm línum lárétt, og lóðrétt er svæðum skipt upp eins og eftir takti. Stafirnir dansa eftir línunum í hreyfðu og kyrru efni, sem færir hönnunarkerfinu nýja vídd í tjáningu á ólíkum viðburðum og annars konar upplýsingum. Enn frekar eru tákn, sem merkja tjáningu tónlistarinnar, notuð til að binda saman svæði og miðla eðli þeirra tónleika sem verið er að tala um.



Oft er sagt að Sinfóníuhljómsveit í eigu þjóðar sé höfuðeinkenni farsæls samfélags. Hún sé afrakstur þess þegar regla og frelsi fái að ná náttúrulegu jafnvægi.
Seinustu ár hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands tjáð þessa hugmynd í gegnum blóm og gróður. Í ár var kafað enn dýpra í blómahafið og hugmyndin víkkuð út til að skapa nýtt lykilmyndefni.
Náttúran getur virst handahófskennd, en þegar nánar er að gáð sést að hegðun hennar byggir á flóknum mynstrum og reglum. Í náttúrunni bregðast efni við tíðni hljóðs á sjónrænan hátt: þegar sandi er stráð yfir stálplötu og fiðlubogi dreginn eftir hlið plötunnar, raðast sandurinn í skýr mynstur eftir tíðni hljóðbylgjanna. Aftur rákumst við á grunnhugmyndina: regla í kaos. Með þessa hreyfingu í huga túlkuðum við taktfastan blómaheim Sinfóníuhljómsveitar Íslands.


Fjórða árið í röð fengum við Sigurð Ými til liðs við okkur til að teikna, hanna og kalla fram hreyfingar blómanna í þrívídd. Blómin dansa í takt við tónbrot úr flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verki verki Ígors Stravinskíjs, Vorblótinu, og frá ólíkum sjónarhornum birtast þau áhorfendum á óræðan máta sem hljómsveitin sjálf. Þau speglast symmetrískt án þess þó að speglmyndin sé fullkomin, þar sem enn er rými fyrir túlkun og frelsi hvers blóms. Enn sem áður er tónninn í rituðum skilaboðum hrífandi, taktviss og lifandi.
Niðurstaðan er skalanlegt, skýrt og fjölhæft hönnunarkerfi sem skapar ramma – og þar með frelsi – fyrir Sinfóníuna til að blómstra.
