Hero image

Ráðleggingar um mataræði

Verkefnið:

Embætti landlæknis uppfærir ráðleggingar sínar um mataræði á tíu ára fresti. Ráðleggingarnar byggja á vísindalegum grunni og í þeim er lögð áhersla á neyslu fjölbreyttrar fæðu á einfaldan og aðgengilegan máta. Verkefnið fól í sér framsetningu og kynningu á endurnýjuðum ráðleggingum embættisins og miðlun á þeim til almennings í framhaldinu.

Verkefnið skilaði:

Teikningum fyrir verkefnið

Nýjum fæðuhring

Framsetningu á ráðleggingum í prentuðum bæklingi og á veggspjöldum

Samfélagsmiðlaefni

Umhverfisauglýsingum

Okkar aðkoma:
GreiningStrategía SamskiptaáætlunHugmyndasmíðHönnunTextagerð
Greining

Mataræði getur verið hlaðið umræðuefni. Fólki er umhugað um eigin heilsu en það er erfitt að vita hvað er rétt og hverju hægt sé að treysta. Síðustu áratugi hefur almenn umræða varðandi mataræði verið öfgakennd og einkennst af megrunarkúrum, boðum og bönnum, án þess að þær lausnir byggi endilega á sannreyndum aðferðum.  

Samskipta- og miðlaumhverfið er gjörbreytt frá því að síðustu ráðleggingar embættis landlæknis voru gefnar út árið 2014. Magnið af upplýsingum sem keppir um athygli fólks hefur stóraukist, ásamt hraðanum á miðluninni. Upplýsingar um heilsu og næringu koma úr öllum áttum og eru oft og tíðum í beinni þversögn við það sem þú heyrðir í gær. 

Því var markmiðið að miðla niðurstöðum áreiðanlegra rannsókna á hátt sem skapar heilbrigða meðvitund meðal fólks um eigið mataræði og hvetur til heilnæmra breytinga. Til þess þurfti að nálgast tjáningu af jákvæðni og jafnvægi, og koma henni til skila af festu og áreiðanleika.  

„Þannig myndum við tjá hugarró og lífsgleði – eitthvað sem fólk þarf nauðsynlega á að halda í annars þrúgandi og þversagnakenndum umræðum um mataræði.“

Strategía

Fæðuhringsplakatið er þjóðþekkt menningarfyrirbæri, sem við munum flest eftir úr heimilisfræðistofum í grunnskóla, og er stór þáttur í ráðleggingunum. Ráðleggingarnar hafa þannig traust og kunnuglegt yfirbragð, en við vildum stilla þeim upp á nútímalegan hátt svo þær næðu sem best til fólks í daglegu amstri. Jafnvægi og yfirvegun voru í hávegum höfð, í litríkum og gleðilegum myndum og skynsömum og hnitmiðuðum skilaboðum. Þannig myndum við tjá hugarró og lífsgleði – eitthvað sem fólk þarf nauðsynlega á að halda í annars þrúgandi og þversagnakenndum umræðum um mataræði.  

Full width image
Full width image
Full width image
Full width image
Full width image
Full width image
Framkvæmd

Leiðarljós í allri útfærslu var hugarró, lífsgleði og traust.  

Inntak tjáningar snýst um jafnvægi, á meðan sjónrænt tjáum við lífsgleði. Þetta kjörnuðum við í hönnunarhugmyndinni: Lífið í jafnvægi. Við fengum virtan matarteiknara til liðs við okkur, Fanny Gentle, sem handmálaði allar teikningar í björtum og lifandi stíl. 

Litapallettan byggir á litum úr hönnunarstaðli  embættis landlæknis, þar sem tónar litanna eru gerðir hlýrri, og nokkrum jarðlitum bætt við til að binda saman litadýrðina. Val á leturgerðum í fyrirsögnum var undir áhrifum matreiðslubóka, á meðan hreinlegt sans-serif letur, Favorit, var notað fyrir tæknilegar upplýsingar sem fylgdu með. 

Aðalafurð verkefnisins eru annars vegar framsetning  ráðlegginganna sjálfra með lykiláherslu á aðgengileika og hins vegar nýr fæðuhringur fyrir komandi kynslóðarminni. Hvort tveggja var sett upp í prentaðan bækling, á veggspjöld og á samfélagsmiðlaefni. 

Umhverfisauglýsingar og birtingar á samfélagsmiðlum gripu athygli landsmanna, svo umræðan var kunnugleg og fólk lagði vel við hlustir þegar landlæknir og fulltrúar embættisins kynntu nýjar ráðleggingar. Prentað efni var gert fallegt og eigulegt, svo landsmenn myndu taka upp og fletta í gegnum bækling, eða staldra við plakat í heimilisfræðistofunni.  

Birting nýrra ráðlegginga og samskiptaherferðin skiluðu eftirtektarverðum árangri, en í mælingu frá Gallup kom fram að neysla á grænmeti og ávöxtum jókst verulega á milli ára.  

Full width image